Tónleikarnir eru á fyrirlestrarformi þar sem sagt er frá ævi og starfi Sveinbjörns Sveinbjörnssonar (fyrsta tónskálds Íslendinga) í tónum og tali - þó meira í tónum.
Útgangspunktur eru píanóverk tónskáldsins. Sveinbjörn var eitt afkastamesta tónskáld okkar þegar kemur að píanótónlist en er liklega einna best þekktur sem höfundur þjóðsöngsins. Hann samdi á fimmta tug píanóverka sem flest hafa hingað til legið óútgefin í Handritasafni Þjóðarbókhlöðunnar en hafa nú verið dregin upp úr kössunum og gefin út. Aðeins tvö píanóverka hans eru nokkuð vel þekkt, Idyl og Vikivaki.
Á tónleikunum mun Þórarinn flytja úrval píanóverka Sveinbjörns. Sem dæmi má nefna fyrsta tónverkið fyrir hljóðfæri sem samið er af Íslendingi: Menuet & Trio. En einnig önnur verk eins og Pastorale, Impromptu Nocturne, Vuggevise, Barcarolle og mörg fleiri. Auk þess mun Þórarinn flytja umritanir Sveinbjörns á eigin sönglögum, útsetningar á íslenskum og skoskum þjóðlögum og verk sem hann samdi fyrir nemendur sína.
Þórarinn Stefánsson hóf píanónám við Tónlistarskólann á Akureyri, en lauk kennara- og einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík vorið 1987. Hann stundaði framhaldsnám í Hannover í Þýskalandi. Þórarinn hefur komið fram á tónleikum víða um Evrópu sem einleikari og meðleikari með söngvurum og hljóðfæraleikurum. Hann hefur einnig skipulagt fjölda tónleika, meðal annars í Þýskalandi, Danmörku, Grænlandi og Færeyjum. Á síðustu árum hefur Þórarinn gefið út nótnabækur með íslenskri tónlist og leikið inná geisladiska. Þórarinn hefur gert upptökur fyrir sjónvarp og útvarp meðal annars með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þórarinn Stefánsson kennir við Tónlistarskólann á Akureyri og Tónlistarskóla Eyjafjarðar
Miðaverð 2.000 kr. Ókeypis fyrir nemendur tónlistarskólanna