Lög hollvina

Samþykktir Heiltóns – hollvinasamtaka Tónlistarskóla Húsavíkur 

1. gr. Félagið heitir Heiltónn - hollvinasamtök Tónlistarskóla Húsavíkur. 
Heimili og varnarþing er að Skólagarði 1, 640 Húsavík. 

2. gr. Félagar geta verið þeir sem samþykkir eru yfirlýstum tilgangi og starfsemi félagsins sem fram koma í samþykktum þessum. Aðalfundur ákveður skilyrði félagsaðildar. Stjórn heldur félagaskrá. Þess skal gætt að félagsmönnum sé tryggður greiður aðgangur að starfsemi og þjónustu félagsins. 

3. gr. Markmið félagsins eru að... a. styrkja og efla TH og almennt tónlistarstarf t.a.m. með skipulagningu viðburða, myndun tengslanets, fjárhagslegum eða faglegum stuðningi. b. styrkja tengsl TH við fyrrum nemendur, nærsamfélagið og aðra þá sem bera hag skólans fyrir brjósti. c. stuðla að viðurkenningu menningar- og tónlistaruppeldis. 

4. gr. Stjórn félagsins er heimilt að innheimta félagsgjald. Stjórn ákveður tilhögun félagsgjalda og sér um innheimtu. 

5. gr. Kosning til stjórnar félagsins skal fara fram á aðalfundi. Stjórn samtakanna skal skipuð fimm aðalmönnum, formanni, ritara og gjaldkera, og tveimur meðstjórnendum. Stjórn skiptir með sér verkum eftir aðalfund. Æskilegt er að hluti fulltrúa sitji a.m.k. tvö ár í senn í stjórn til að halda samfellu í starfi félagsins. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum. 
Í verkahring stjórnar er m.a. að:
 
• taka ákvörðun um áherslur í starfsemi félagsins hverju sinni
 • hafa samráð við stjórnendur TH
 • halda aðalfund
 • varðveita félagaskrá samtakanna og skrá yfir alla brautskráða nemendur frá TH
 • veita félagsmönnum upplýsingar um starfsemi samtakanna
 • innheimta og ráðstafa árgjöldum og öðrum fjárframlögum
 • færa reikningshald yfir fjárreiður félagsins
 • gera félagsmönnum kleift að fylgjast með og eiga hlutdeild í fjölþættri starfsemi TH
 • koma saman til fundar svo oft sem þurfa þykir en eigi sjaldnar en á hálfsárs fresti. 

6. gr. Félagsmenn skulu á aðalfundi móta leiðir að markmiðum félagsins. Bókfæra skal allar ákvarðanir.
 
7. gr. Aðalfund skal halda fyrir sumardaginn fyrsta ár hvert og skal boða til hans með auglýsingu hjá TH og í staðarmiðli með minnst 3 daga fyrirvara. Á aðalfundi félagsins skal stjórn gera upp starfsemi liðins árs.
 
8. gr Breytingar á samþykktum þessum ná því aðeins fram að ganga að þær séu bornar upp skriflega á aðalfundi og 2/3 fundarmanna greiði þeim atkvæði. Sama gildir um slit félagsins.
 
9. gr Komi til slita félagsins skulu allar eignir þess renna til Tónlistarskóla Húsavíkur. 

Húsavík 21. apríl 2009