Þjónustusamningur Tónlistarskóla Húsavíkur

Umsóknarferlið

Opnað er fyrir umsóknir um skólavist fyrir næst komandi skólaár að loknu páskafríi ár hvert. Þetta verður auglýst í Skránni og nemendur/foreldrar fá fréttabréf þar sem þeir verða minntir á að sækja um nám fyrir næsta skólaár. Tekið er við umsóknum fyrir yfirstandandi skólaár fram í febrúar ár hvert og nemendur settir á biðlista; nýir nemendur eru síðan teknir inn ef pláss losna. Umsóknarformið er rafrænt og aðgengilegt allt árið um kring á heimasíðu skólans. Yfir sumarmánuðina er unnið úr umsóknum og nemendaplássum úthlutað fyrir komandi skólaár. Eiga þeir forgang sem stundað hafa nám við skólann áður og eins þeir sem hafa stundað nám við aðra tónlistarskóla. Einnig verður horft til dagsetningar umsóknanna þannig að "fyrstir koma fyrstir fá”. Við annaskil, um miðjan janúar, þurfa nemendur sem eru í námi ekki að sækja um að nýju en þeir sem hugsa sér að hætta eru beðnir um að tilkynna það fyrir jólafrí. 

Tónlistarnámið

Tónlistarskólinn leggur áherslu á að tónlist sé fyrir alla og beitir fjölbreyttum kennsluaðferðum og notar margskonar tegundir af tónlist til að ná námsmarkmiðum nemenda. Hver nemandi hefur einstaka hæfileika og aðstæður og byggja framfarir á æfingu, skipulagi, leikgleði, sjálfstrausti og miklu og góðu samstarfi við foreldra. Tónlistarkennarinn er umsjónarkennari sinna nemenda, hlustar á óskir þeirra og þarfir og skipuleggur kennsluna í samræmi við það. Til að námið skili sem bestum árangri er mikilvægt að foreldrar haldi kennaranum vel upplýstum um það sem gengur vel heima fyrir og hvað gengur miður varðandi tónlistarnámið. Gott samstarf er lykillinn að góðum árangri. 

Skólagjöld

Gjaldskrá skólans er háð ákvörðun sveitastjórnar Norðurþings um gjaldskrárhækkanir. Tónlistarskóli Húsavíkur áskilur sér rétt til hækkunar skóla- og hljóðfæraleigugjalda á skólaárinu í samræmi við ákvarðanir sveitastjórnar. Skólagjöld tónlistarskólans eru ákvörðuð fyrir eitt ár í einu og þurfa skólagjöld haustannar að vera geidd áður en vorönn hefst. Veittur er 25% systkinaafsláttur af skólagjöldum, en ekki er veittur afsláttur af hljóðfæraleigu. Greiðsla skólagjalda fer nú í gegnum greiðslumiðlunina Nora þar sem greiðendur geta valið um greiðsluaðferð og greiðsludreifingu og notað frístundastyrk Norðurþings til að greiða niður skólagjöldin. Sjá nánar um greiðslukerfið hér

Forföll og leyfi

Ef forföll kennara verða þess valdandi að kennsla nær ekki 15 vikum á önn mun viðkomandi nemandi fá afslátt af skólagjöldum í réttu hlutfalli við þá skerðingu sem um ræðir. Nemandi sem tekur sér leyfi frá tónlistarskólanum á ekki rétt á uppbótartímum.

Uppsögn á skólavist

Nemendur geta sagt upp skólavist hvenær sem er. Til þess að uppsögn sé gild verður að segja náminu upp skriflega með tölvupósti á netfangið ritari@tonhus.is Hætti nemandi í námi eftir að 6 vikur eru liðnar af önninni verða skólagjöldin ekki endurgreidd, en ef uppsögnin kemur fyrir þann tíma verða felld niður skólagjöld þann tíma sem nemandi nýtir ekki. Hljóðfæraleigugjald verður hinsvegar ekki endurgreitt þótt nemandi hætti námi áður en 6 vikur eru liðnar af önninni.

Hljóðfæraleiga

Tónlistarskólinn á nokkurt safn hljóðfæra sem nemendur geta fengið leigð fyrstu námsárin. Hljóðfæri í leigu nemenda eru alfarið á þeirra ábyrgð þannig að ef skemmdir verða á leiguhljóðfærum í vörslu nemenda eða forráðamanna ber leigjanda að bæta tjónið að fullu skv. mati viðurkenndra hljóðfæraviðgerðamanna. Umsækjendum er bent á að mögulegt er að tryggja hljóðfæri í þeirra umsjón hjá öllum helstu tryggingarfélögum.Það er stranglega bannað að lána hljóðfærin til þriðja aðila.

Hljóð- og myndefni

Hljóð- og myndefni sem tekið er upp af starfsmönnum skólans á viðburðum sem skólinn stendur fyrir og í kennslustundum er eign Tónlistarskóla Húsavíkur. Á umsóknarforminu þarf að samþykkja eða hafna myndatöku af nemanda, svo og birtingu myndefnis á vefmiðlum skólans. Samþykki þetta gildir á meðan nemandi stundar nám við skólann. Foreldrar eiga rétt á að draga samþykki þetta til baka hvenær sem er. Skal það gert með því að senda skólanum skriflega beiðni um afturköllun samþykkis. Afturköllun samþykkis gildir frá þeim tíma sem beiðnin berst. 

Lögheimil utan Norðurþings

Norðurþing greiður kennslukostnað fyrir þá nemendur sem eru með lögheimili í Norðurþingi. Nemendur sem ekki eru með lögheimili í Norðurþingi, en vilja stunda grunn- eða miðnám við Tónlistarskóla Húsavíkur, þurfa annað hvort að borga kennslukostnaðinn sjálfir eða fá samþykki sveitarfélags síns um að greiða kennslukostnaðinn. Sum sveitarfélög hafa sett sér ákveðnar reglur varðandi þetta svo best er að leita þangað eftir frekari upplýsingum.
Nemendur í framhaldsnámi og þeir sem stunda miðnám í söng falla undir reglur jöfnunarsjóðs íslenskra sveitarfélaga um jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms og er því kennslukostnaður þeirra nemenda greiddur að mestu leyti af ríkinu.

Samþykki

Með því að senda inn umsókn í Tónlistarskóla Húsavíkur samþykkir umsækjandi þá skilmála sem birtast í skjali þessu sem og gjaldskrá skólans og taka skilmálarnir gildi strax og umsækjandi hefur fengið staðfestingu á námsvist.