Skólastarfið hafði

Þá er hafið nýtt skólaár hjá okkur og spennandi vetur framundan. Tónlistarkennararnir eru búnir að raða nemendum sínum á tíma og erum við að vinna í því að mynda samspilshópa.  

Eins og undanfarin ár verða margir tónleikar á skólaárinu þar sem nemendur okkar spila fjölbreytta tónlist. Tónleikarnir verða í sal Borgarhólsskóla kl. 19:30 og standa ekki lengur en í 45 mínútur. Dagsetningar tónleika á skólaárinu má sjá á skóladagatalinu sem er á heimasíðunni okkar. 

Foreldravika tónlistarskólans, þar sem foreldrar eru hvattir til að koma í tónlistartíma með börnum sínum, er á dagskrá á næstunni, en vegna COVID-19 er óvíst hvernig við framkvæmum heimsóknir foreldra að þessu sinni. Þið fáið fréttir af því þegar ákvörðun hefur verið tekin. 

Svæðisþing tónlistarskólanna verður haldið í Varmahlíð föstudaginn 2. október og fellur öll kennsla hjá okkur niður þann dag. 

Búið er að senda skólagjöld haustannar yfir í greiðslukerfið Nora. Greiðendur skólagjalda geta því núna farið inn í Nora á netinu og notað frístundastyrkinn til að greiða niður skólagjöldin, ef hann hefur ekki verið nýttur fyrir árið 2020. Einnig er hægt að velja greiðslumáta og skipta skólagjöldum annarinnar í 2 eða 3 greiðslur. Upplýsingar um greiðslukerfið Nora er að finna á heimasíðunni okkar, www.tonhus.is undir liðnum "Innheimta skólagjalda". Greiðslukerfið sjálft er hér https://nordurthing.felog.is/ og þarf að nota rafræn skilríki eða Íslykil til að skrá sig inn í kerfið. Greiðendur skólagjalda hafa til 15. október til að ganga frá greiðslum skólagjalda inni í Nora; eftir það verða skólagjöldin, þeirra sem ekki hafa gengið frá greiðslunni inn í Nóra, sett á þrjá greiðsluseðla sem koma til greiðslu í nóvember, desember og janúar. Ekki er hægt að nota frístundastyrkinn til niðurgreiðslu skólagjalda í þessari aðgerð. Skólagjöld vorannar fara einnig inn í greiðslukerfi Nora; verður þá komið nýtt ár með frístundastyrk 2021 sem greiðendur skólagjalda geta notað upp í greiðsluna á vorönn. 

Nemendakerfið okkar heitir School Archive og sendum við netpósta til nemenda og foreldra úr því kerfi. Póstur úr kerfinu á það til að lenda í ruslmöppu og því bið ykkur um að fylgjast með því hvort póstar frá School Archive lendi í ruslinu hjá ykkur.