Á tónleikum
Dagskráin verður þétt til vors, með 13 tónleikum í salnum á Húsavík, tvennum í Lundi og tvennum í Mývatnssveit, Uppskeruhátíð, þemadögum, Nótunni í Hörpu í Reykjavík, áfangaprófum og stigsprófum.
Það stóð til að halda Dag tónlistarskólanna hátíðlegan 8. febrúar í samstarfi við tónlistarskóla á Norðausturlandi, en því miður verður ekki af því þetta árið. Aftur á móti verður Uppskeruhátíðin okkar sunnudaginn 1. mars í salnum á Húsavík og með kaffisölu Hollvinasamtaka Tónlistarskólans á milli tónleika.
Í næstu viku er foreldravika í tónlistarskólanum og hvetjum við ykkur til að koma í tíma með börnunum til að kynnast náminu og kennaranum betur. Foreldravikan þarf ekki endilega að vera bara þessi eina vika því þið eruð alltaf velkomin.
Að lokum vil ég þakka ykkur fyrir það hvað breytingin á greiðslufyrirkomulagi skólagjaldanna hefur gengið vel. Sami háttur verður hafður á innheimtu skólagjalda þessa önnina, þ.e. reikningar verða sendir inn í greiðslukerfið NORA, þar sem hægt verður að nýta frístundastyrk 2020 til niðurgreiðslu á skólagjöldum vorannar. Með góðum kveðjum Rúna.