Í stuði saman eru vinnustofur fyrir tónlistarnemendur 10 ára og eldri, sama á hvaða hljóðfæri þeir eru að læra. Vinnustofurnar eru samstarfsverkefni Tónasmiðjunnar og tónlistarskólanna í Norðurþingi, Mývatnssveit og Þingeyjarsveit. Á vinnustofunum fá tónlistarnemendur tækifæri til að taka þátt í vinnustofum þar sem þeir kynnast öðrum upprennandi tónlistarmönnum og spila í hljómsveit með reyndum hljóðfæraleikurum. Á Vinnustofunum læra nemendur á ferlið frá fyrstu hikandi skrefum til fullbúins lags, sem meðal annars felst í því að taka skapandi og listrænar ákvarðanir, þroska sinn persónulega stíl, tjá skoðanir sínar, taka tillit til annarra og svo auðvitað að ná betri tökum á hljóðfæri sínu.
Þátttaka í vinnustofunum stendur til boða nemendum tónlistarskólanna í Norðurþingi, Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppi sem eru í 5. bekk grunnskóla eða eldri og er þeim að kostnaðarlausu. Kennarar tónlistarskólanna munu undirbúa tónlistarnemendur sína fyrir vinnustofurnar með því að kenna þeim lögin sem spiluð verða. Vinnustofurnar fara fram í húsnæði Tónasmiðjunnar á Húsavík og umsjón með þeim er í höndum Elvars Bragasonar.
Vinnustofurnar verða eina helgi í mánuði, laugardag og sunnudag, frá febrúar til maí og líkur hverri vinnustofuhelgi á því að lögin verða spiluð og tekin upp á myndband sem nemendur fá.
Fyrsta vinnustofan verður helgina 6. - 7. febrúar 2021 á eftirfarandi tímum:
- Hópur 1 er fyrir nemendur í 5.-7. bekk og æfir laugardaginn 6. febrúar kl. 10:00-11:30 og kl. 12:30-14:00
- Hópur 2 er fyrir nemendur í 8.-10. bekk og æfir sunnudaginn 7. febrúar kl. 10:00-11:45 og 13:00-14:45
- Hópur 3 er fyrir 16 ára og eldri og æfir laugardaginn 6. febrúar kl. 14:30-15:30 og kl. 16:00-17:00
ATH: Vinnustofurnar eru ekki bara fyrir þá sem spila á trommur, gítar, bassa, píanó eða syngja; þær eru líka fyrir þá sem spila á flautu, ukulele, básúnu, klarinett, harmoniku, trompet og öll hin hljóðfærin.
Í stuði saman er styrkt af Uppbyggingarsjóði Eyþings