Stjórn Heiltóns með Árna
frá vinstri, Soffía Sverrisdóttir, Helga Soffía Bjarnadóttir, Árni Sigurbjarnarson, Jóhanna Kristjánsdóttir og Jóhanna Svava Sigurðardóttir. Örnu Þórarinsdóttur vantar á þessa mynd, hún er einnig í stjórninni.
Uppskeruhátíð Tónlistarskóla Húsavíkur var haldin 1. mars. Dagurinn var tileinkaður Árna Sigurbjarnarsyni, harmonikuleikara, harmonikukennara og skólastjóra tónlistarskólans. Árni hefur starfað við tónlistarskóla Húsavíkur í hart nær 40 ár, fyrst sem kennari og frá árinu 1987 sem skólastjóri. Árni er nú hættur sem skólastjóri tónlistarskólans og tók Guðrún Ingimundardóttir við keflinu síðast liðið haust. Árni mun þó halda áfram sem harmonikukennari og fylgja sínum nemendum eftir. Árni er frumkvöðull í tónlistarkennslu í leik- og grunnskóla og kom á kennslu fyrir alla nemendur á sínu starfssvæði. Árna er mjög umhugað um hlutverk menningar í samfélaginu og hefur unnið dyggilega að tónlistarlífi svæðisins og sett fingraför sín víða er viðkemur því. Árni var einn af forsprökkum Heiltóns, hollvinasamtaka tónlistarskóla Húsavíkur og stutt vel við bakið á samtökunum frá stofnun þess og fyrir það ber að þakka.
Árni var gerður að heiðursfélaga Heiltóns, hollvinasamtaka tónlistarskóla Húsavíkur í gær á uppskeruhátíð skólans. Stjórn samtakanna hélt honum smá tölu og færði honum formlegt skjal og blóm til staðfestingar nafnbótinni á hátíðinni. Á meðfylgjandi mynd má sjá Árna með stjórn Heiltóns, en Örnu Þórarinsdóttur vantaði með, en hún er einnig í stjórn samtakanna.
Uppskeruhátíðin hófst með því að Guðrún Ingimundardóttir, skólastjóri tónlistarskólans, setti samkomuna, síðan kom að heiðrun Heiltóns, svo tóku við fjölmörg og fjölbreytt atriði frá nemendum tónlistarskólans. Þá tók við ræða frá Norðurþingi þar sem Kristján Þór Magnússon þakkaði Árna fyrir vel unnin störf í þágu skólans og færði honum virðingarvott. Árni kom svo upp og fór yfir störf sín í ræðu og þakkaði hlýhug í sinn garð og óskaði Guðrúnu Ingimundardóttur velfarnaðar í starfi sem skólastjóri tónlistarskólans. Í lokin sungu kvennakór Húsavíkur og Sólseturskórinn nokkur lög. Að tónleikum loknum var Heiltónn með lítið kaffihús í anddyri skólans, þar sem gestum gafst tækifæri til að kaupa sér kaffi og vöfflu og setjast niður og spjalla saman. Allur ágóði kaffihússinn rennur svo til tónlistarskólans, en Heiltónn hefur styrkt skólann í hljóðfærakaupum, námskeiðahaldi og fleiru sem hefur komið skólanum vel í gegnum tíðina, en Heiltónn fagnaði 10 ára afmæli á síðasta ári.
Frétt fengin að láni af facebooksíðu formanns Heiltóns Jóhönnu Kristjánsdóttur