Söngnám

SöngurÞar er boðið upp á hefðbundinn klassískan söng og rytmískan söng. Nám í söng hefur talsverða sérstöðu miðað við annað tónlistarnám. Í fyrsta lagi má nefna þá staðreynd að hljóðfæri söngnemandans, röddin, er hverjum og einum gefin. Hún er hluti líkamans, einstök og óendurnýjanleg. Í öðru lagi eru fyrri kynni söngnema af tónlistarnámi og iðkun tónlistar mjög breytileg. Sumir hafa stundað hljóðfæranám frá unga aldri, aðrir tekið þátt í markvissu kórstarfi og enn aðrir hafa ekki hlotið formlega tónlistarþjálfun. Framangreind atriði geta haft áhrif á framvindu námsins og því getur námshraði nemenda í söng verið afar mismunandi.

Á undanförnum áratugum hefur meðalaldur byrjenda verið 16 til 18 ár en á síðustu árum hefur sá aldur færst neðar. Raddþroski er þó mjög einstaklingsbundinn og meta verður hvern einstakling sérstaklega. Nemendur, sem hafa góðar og þjálfaðar raddir, geta farið hratt yfir fyrstu stig í söngnáminu enda mikilvægt að þeir sem stefna að atvinnumennsku í söng komist sem fyrst til náms á háskólastigi

SöngurSöngnám gerir um margt aðrar kröfur til nemenda en nám á hljóðfæri, m.a. varðandi tungumál, framburð, túlkun texta og leikræna túlkun. Enn eitt atriði, sem greinir söngvara frá öðrum tónlistarmönnum, er sú staðreynd að þeir eru nánast alltaf í aðalhlutverki þegar þeir eru þátttakendur í hljómsveit. Þetta undirstrikar mikilvægi framkomu og samskipta við áheyrendur fyrir söngvara, umfram aðra. Mikilvægt er að söngnemendum gefist kostur á tilsögn í þessum efnum og reglulegum undirleikstímum. Enn fremur er æskilegt að söngnemendur læri að leika á önnur hljóðfæri, einkum hljómborðshljóðfæri.