Trompetnám

TrompetTrompet/Kornett
Algengast er að nemendur á málmblásturshljóðfæri byrji að læra á trompet eða kornett. Einnig stendur nemendum til boða að læra á stærri málmblásturshljóðfæri s.s. básúnu og horn.

Nokkur atriði varðandi nám á trompet


Námskrá fyrir trompet á einnig við um kornett og flygilhorn enda eru hljóðfærin náskyld og nýta sama kennsluefni. Til hægðarauka og einföldunar er námskráin kennd við trompet og hann oftast einn nefndur í stað þess að telja upp öll hljóðfærin þrjú.

Nám á trompet getur hafist þegar nemendur hafa líkamlega burði til að leika á hljóðfærið og fullorðinsframtennur eru komnar á sinn stað. Algengast er að námið hefjist þegar nemendur eru á aldrinum 8 til 10 ára. Oft þykir heppilegt að nemendur hefji nám á kornett þar sem það er léttara og meðfærilegra en trompet.

Trompetar eru til í mörgum stærðum og tóntegundum en algengastur er trompet í B. Hann er grunnhljóðfæri í öllu trompetnámi og nánast einráður í lúðrasveitum og rytmískri tónlist. Minni trompetar, s.s. Dtrompet, Es-trompet og piccolotrompet í B eða A, eru einkum notaðir til að leika eldri trompetkonserta og nútímatónlist. Í sinfóníuhljómsveitum er C-trompet algengastur en B-trompet og minni trompetar eru einnig talsvert notaðir. Kornett og flygilhorn hafa verið í notkun síðan snemma á 19. öld. Kornett var afar vinsæll um aldamótin 1900 og var þá mikið skrifað af glæsilegum einleiksverkum fyrir hann. Nú til dags er flygilhorn algengast sem aukahljóðfæri trompetleikara í stórsveitum og öðrum djasshljómsveitum.

Mikið er til af samleiksverkum fyrir málmblásara. Algengust eru kvintettar, kvartettar og tríó en einnig er talsvert um verk fyrir stærri hópa, svo sem lúðrasveitir og málmblásarakóra. Mikilvægt er að nemendum á málmblásturshljóðfæri gefist tækifæri til að kynnast þessari tónlist, gjarnan í reglulegu starfi samleikshópa.

Aðalnámskrá tónlistarskóla, Málmblásturshljóðfæri. Bls. 9-10.