Harmoníkunám

HarmóníkaHarmóníka

Flestir nemenur á harmóníku læra á hnappahljóðfæri með svo kölluðu c gripi. Þó er kennt á allar gerðir af harmóníkum og tekið tillit til þess hvaða hljóðfæri nemendur hafa aðgang að sjálfir.

Nokkur atriði varðandi nám á harmóníku


Þó að harmonika eigi sér tiltölulega skamma sögu í íslenskum tónlistarskólum hafa fá hljóðfæri notið jafnmikilla vinsælda meðal alþýðu manna. Harmonika var um langt árabil leiðandi hljóðfæri í dans- og alþýðutónlist til sjávar og sveita. Í dag nýtur harmonikan enn sem fyrr vinsælda á þessu sviði en auk þess hefur á síðastliðnum áratugum verið samið talsvert af nútímatónlist fyrir harmoniku. Þá er einnig hægt að nota ýmiss konar eldri tónlist, sem samin var fyrir önnur hljóðfæri, auk sérstakra umritana fyrir harmoniku. Þannig spanna tónbókmenntir harmonikunnar víðara svið en margur hyggur.

Nám á harmoniku getur hafist þegar nemendur hafa líkamlega burði til að leika á hljóðfærið. Hefji nemendur nám á litlar harmonikur er gert ráð fyrir að þeir skipti yfir á stærri hljóðfæri þegar áleiðis miðar í náminu og í samræmi við aukinn líkamsþroska. Þróun í harmonikusmíði hefur verið ör á síðustu áratugum og eru harmonikur nú fáanlegar í ýmsum stærðum og gerðum. Til eru viðeigandi hljóðfæri fyrir alla aldurshópa frá u.þ.b. fimm ára aldri.

Tvær grundvallargerðir eru til af harmonikum. Annars vegar eru harmonikur með tónbassa, þ.e. hljóðfæri með tveggja raða grunnbassa og fjögurra raða tónbassa í stað hljóma (Melody Bass, gjarnan skammstafað MB). Hins vegar eru harmonikur með hljómbassa, þ.e. hljóðfæri með tveggja raða grunnbassa og fjögurra raða hljómum (Standard Bass, gjarnan skammstafað SB).

Í þessari námskrá er miðað við að nemendur stundi nám á harmoniku með tónbassa en mögulegt er þó að stunda grunnnám á harmoniku með hljómbassa. Hefji nemendur nám á hljóðfæri með hljómbassa er gert ráð fyrir að þeir skipti um hljóðfæragerð eigi síðar en í miðnámi. Flestar harmonikur með tónbassa hafa skiptirofa (konverter) og er þá einnig unnt að leika á hljóðfærið á sama hátt og harmoniku með hljómbassa.

Hnappaharmonikur eru framleiddar með þrenns konar gripakerfi, þ.e. A-, B- og C-gripum. òtbreiddast í heiminum er C-gripakerfið og er mælt með notkun slíkra hljóðfæra. Æskilegt er að nemendur hefji strax nám á hnappaharmoniku með tónbassa enda er mikill hluti tónbókmennta harmonikunnar skrifaður fyrir slík hljóðfæri. Auk þess býður notkun tónbassa upp á möguleika á flutningi píanó-, sembal- og orgeltónlistar á harmoniku. Eigi að síður er mikilvægt að nemendur kynnist einnig tónlist fyrir harmoniku með hljómbassa en sú tónlist á oft rætur að rekja til ýmiss konar þjóðlagatónlistar.

Aðalnámskrá tónlistarskóla, Hljómborðshljóðfæri. Bls. 113-114.